Streymisveitur
Eftir að Spotify hóf að bjóða Íslendingum aðgang að streymisveitunni sinni árið 2013 hefur hún notið mikillar markaðshlutdeildar hér á landi. Seinna varð Apple Music og Tidal aðgengilegt á Íslandi, en þær veitur hafa aldrei náð sama fjölda notanda hér á landi.
Eftir fjölda frétta um slæma hegðun Spotify hvað varðar tekjur tónlistarfólks frá veitunni, grunsamlega viðskiptahætti o.fl., þá prófaði ég Apple Music um stund, en komst svo að því að ég gat ekki hlustað á Bent Nálgast á þeirri veitu, þannig að ég skipti til baka. Síðan þá hefur Spotify bara orðið verra og verra, en fyllti svo minn persónulega siðferðismæli þegar forstjóri Spotify fjárfesti rúmum milljarði króna í gervigreindarhernað, sem ég er mótfallinn á mörgum stigum.
Blessunarlega er yfirleitt nóg framboð af hverju sem er og oftast auðvelt að skipta bara. Mér til mikillar ánægju er ekki bara Bent Nálgast nú komið inn á veitu Apple, heldur einnig allt XXX Rottweiler safnið ásamt öllum þeim íslensku listamönnum sem mér datt í hug að leita að. Frábært, fjölskylduplan skal það vera svo ég geti kúgað sambýlisfólkið mitt til að skipta líka einhverntíman seinna.
Ég byrjaði að gera lagalista með lögum sem mér finnast skemmtileg, ásamt því að fylgja öllu mínu uppáhalds tónlistarfólki á veitunni. Ég hlustaði nokkrum sinnum á lagalistann í heild sinni, til að reyna að kenna veitunni á minn tónlistarsmekk. Eftir það hlustaði ég á fyrsta mixið mitt, sér-útbúið fyrir mig af gervigreind Apple. Þar er að finna slagara frá mörgum þungavigtaleikmönnum úr rapp senunni, sagði veitan mér. Það reyndist rétt, fyrst þrjú lögin voru Benny the Butcher, Tyler, the Creator og Kendrick Lamar. Næstu 27 lögin voru síðan kóreskt ofur-popp, klisjukennt popp sem enginn hefur heyrt frá um 2004, eða eitthvað þar á milli.
Beint í stillingarnar, áskriftir, hætta áskrift. Ég var bókstaflega reiður yfir því að hafa óbeint borgað mánaðarlegt gjald fyrir þennan lagalista. Svekktur yfir þessu og fylltur vonleysi bjó ég mig undir að grafa upp geisladiskaspilarann minn og hanga allan daginn í Geisladiskabúð Valda. Síðan mundi ég að Jay-Z hafði um árið stofnað streymisveitu sem átti að borga listamönnum meira fyrir hvert streymi og bjóða upp á betri hljómgæði. Eftir smá fyrirgrennslan komst ég að því að veitan er í fyrsta lagi ennþá starfandi og í öðru lagi er Bent Nálgast í boði þar.
Beint í fjölskylduplan til að geta kúgað konu mína og börn eins og áður. Uppsetningarferlið biður þig um að velja allt það tónlistarfólk sem þú fílar. Ég gerði það, fékk “Welcome Mix” sem var eitt besta samansafn af lögum sem ég hafði heyrt. Ég heyrði þetta reyndar rétt eftir að ég hlustaði á mixið frá Apple þannig upplifunin gæti verið ýkt.
Ef þú, kæri lesandi, ert fullsaddur af skítlegu eðli Spotify get ég mælt með Tidal. Kostir innihalda gott vefviðmót sem er lúxus ef fólk vinnur við tölvu, og ef þú deilir lagi frá veitunni til vina þinna þá opnast sá hlekkur í hvaða veitu sem er. Þér getur líka liðið betur þegar þú veist að Bent og félagar eru að fá aðeins betri tekjur af því að þú ert að hlusta á þá einhversstaðar annarsstaðar en á Spotify.