Daglegt líf Dodda

Hvernig á að hjóla í vinnuna

Eyðið þið of miklum tíma sitjandi í umferð? Eruð þið að bugast undir háum vöxtum bílaláns númer tvö? Er áreiðanleg strætóferð fjarlægur draumur?

Þá gæti hentað þér að hjóla í vinnuna! Ef þú ert í þessum hugleiðingum eru hér nokkur atriði sem gott er að hafa í huga, frá manni sem fékk nóg af morgunumferðinni í Borgartúnið og hefur síðan hjólað í vinnuna í 3 ár.

Hvernig hjól á ég að fá mér?

Sumt okkar hjólar í vinnuna því það vill sleppa frá einkabílnum og umferðinni, nýtur jafnvel útivistarinnar, en vill ekki endilega alla hreyfinguna sem fylgir því. Rafhjól eru álitlegur kostur fyrir það fólk.

Ef þið hafið hins vegar áhuga á hreyfingunni sem þessu fylgir getur þetta verið frábær kostur fyrir þau okkar sem hafa lítinn ráðstöfunartíma til að verja í aðra hreyfingu. Þá kaupum við okkur fótknúið hjól. En eigum við að kaupa götuhjól, keppnishjól, fjallahjól, malarhjól, breiðhjól, einhjól eða hvað?

Hér er vert að benda á að við búum ekki við mikið flatlendi á höfuðborgarsvæðinu. Ég get ekki talað fyrir önnur bæjarfélög en ég bý í og vel gæti verið að eins gíra þægindahjól henti vel í einhverjum sérlega flötum bæ úti á landi, en ekki fyrir okkur sem hjóla reglulega meira en 5km í senn á höfuðborgarsvæðinu.

Svo ég tali af reynslu þá eru um 11km á milli grynni Hafnarfjarðar og Borgartúns og 150m hækkun. Það er nógu mikil hækkun þannig að maður svitni. Hér erum við því að stunda íþrótt, og skulum haga okkur samkvæmt því.

Þetta krefst þess að búninga- og sturtuaðstaða sé í boði á vinnustaðnum þínum, ef ekki þín þá kollega þinna vegna.

Að því sögðu mæli ég með götuhjólinu, eða racer eins og sum segja. Ég veit að það var æðið þegar WOW hélt reiðhjólakeppni í kringum landið, og í dag er æðið allt malar hitt og malar þetta. Það hentar vissulega ágætlega á fínni möl, en götuhjólið hentar betur á malbiki, sem er vonandi sem mest af á leiðinni í þína vinnu.

Áður en þú kaupir hjól þarftu að vita stærðina sem þig vantar. Stærðirnar á götuhjólum eru oftast gefnar upp sem sentímetrar frá hnakkpípu að stýrispípu. Ég er 186cm og rúlla um á stærð 56, sem segir þér ekki neitt. Notist við eina af fjölda reiknivéla sem finna má á netinu.

Nú vitið þið stærðina, þá getum við fundið hjól. Ekki vera eitt af hundruðum að selja “nánast ónotað” milljón króna hjól á bland.is. Eins og alltaf mun ég mæla með því að nýta þessa hvatvísi annarra og kaupa notað hjól á bland eða markaðstorgum facebook.

Ég mæli með nokkurra ára gömlu hjóli frá dögum WOW keppninnar, þá getum við fengið hjól úr koltrefjum fyrir gott verð, líklega undir 100.000kr. Flest þessi hjól eru endurance racer sem er ætlað í lengri ferðir, og situr knapinn þá uppréttari en á keppnishjóli. Hér sættum við okkur við púðabremsur.

Bera þarf í huga að ef við berum ábyrgð á litlum börnum gæti verið gaman að festa þau einhvernveginn á hjólið. Það er í besta falli óskynsamlegt á götuhjóli úr koltrefjum. Þá viltu hjól úr áli eða stáli með meira burðarþoli. Ég mæli með að kaupa hjól fyrir börnin og kenna þeim að hjóla sjálf.

Ekki láta blekkjast af því að þú þurfir malarhjól í þessum tilgangi. Hversu víða finnurðu fína möl sem er ekki svo gróf að fjallahjól henti ekki betur? Óvíða. Hversu oft rúllarðu hægar á malbiki af því að þú gætir þurft að hjóla á möl? Nánast alltaf.

Hvaða búnað þarf ég?

Þú getur hjólað í niðurþröngum íþróttabuxum og almennum íþróttafötum til að byrja með. Ég mæli með að splæsa í stuttar hjólabuxur fyrst, til að bjarga rassinum. Fatnaðurinn að ofan skiptir minna máli. Hjólafatnaður á að vera þröngur, það lítur verr út að vera í skökkum hlutföllum í of stórri stærð. Þetta venst.

Það er hægt að hjóla á götuhjóli með venjulegum pedulum. Það er hins vegar líklegt að einhverskonar pedalar hafi fylgt hjólinu fyrir götu- eða fjallahjólaklíta. Fjallahjólaklítar eru aðeins lausari og klítarnir eru innfelldir í sólann svo það er ekkert mál að labba á þeim. Götuhjólaklítar eru með stærra flatarmáli til að stíga á og þeir halda betur við fótinn, en það er ömurlegt að labba á þeim. Ég mæli með einhverskonar klítum frekar en ekki, aðallega vegna þess að þá er fóturinn alltaf á réttum stað á pedalanum og hnikar ekkert til við skiptingar milli gíra eða neitt svoleiðis.

Hjólið í einhvern tíma í venjulegum skóm og hafið fast í huga að láta eins og þið séuð að aflæsa skónum úr klítanum alltaf þegar þið stoppið. Ef þú gleymdir að hugsa út í það, þá hefðirðu dottið. Þegar þú manst alltaf eftir því ertu tilbúin að fara í skóna.

Gamli hjálmurinn þinn síðan þú varst krakki er ekki öruggur lengur, hjálmar duga bara í 5 ár vegna rýrnunar í plastinu. Það fæst nýr í öllum hjólabúðum. Hjólaðu með hjálm.

Viðhald

Þú ert kominn með hjólið, kominn með búnaðinn. Fyrst hjólarðu einu sinni í viku, síðan tvisvar, að lokum fimm sinnum í viku og ert búinn að selja bílinn þinn. Öll þessi notkun á hjólinu krefst viðhalds.

Annað hvort geturðu lesið þér til og lært með því að gera, eða borgað reglulega háar upphæðir fyrir tiltölulega einfaldar aðgerðir.

Í fyrsta lagi mun slangan í dekkinu þínu springa. Þá þarf að eiga

  • Nýjar slöngur.
  • Pumpu, helst stóra gólfpumpu með þrýstingsmæli.
  • Dekkjaþræla.

Ekkert af þessu er dýrt. Í öðru lagi munu gírarnir afstillast með tímanum, þá aðallega þeir aftari. Þetta er stillt með því að skrúfa vírinn inn eða út og krefst bara vitneskju, engra verkfæra, þó að hjólaviðgerðarstandur geri þetta verk hundrað sinnum auðveldara. Góðar leiðbeiningar frá Park Tool má finna á youtube.

Í þriðja lagi mun drifbúnaðurinn verða óhreinn. Keðjan er smurð með olíu, annað hvort ætlaðri fyrir þurrar eða blautar aðstæður. Ég mæli með olíu fyrir þurrar aðstæður, það þarf að bæta oftar á hana en það er auðveldara að þrífa keðjuna eftir hana. Með tíma safnast ryk af malbikinu í olíuna og hún verður skítug. Þá notum við fituhreinsi, þeir mega ekki vera of öflugir, notið þessa sem eru ætlaðir fyrir reiðhjólakeðjur. Ef þið hjólið á hverjum degi mæli ég með að gera þetta vikulega, en það fer eftir aðstæðum. Ég mæli einnig almennt með því að þrífa hjólið sjálft þegar það verður skítugt.

Í fjórða lagi mun teygjast á keðjunni. Hér er mjög gott að eiga einfalt verkfæri sem mælir hversu slitin keðjan er. Með tíma rýrna hlekkir keðjunnar sem orsakar lengingu á keðjunni. Ef keðjan er teygð um 0.75% skal skipta um hana. Ef hún verður teygðari en það hættir hún að passa ofan í tannhjólin á gírunum og fer að eyðileggja þá. Á þeim tímapunkti þarftu nýja kasettu (gírarnir að aftan), og ef keðjan var mjög langt leidd, ný tannhjól að framan. Þetta er margfalt dýrara en ný keðja.

Aðra hluti þarf að annast, eins og legurnar í sveifasettinu og stýrinu, sem og legurnar í dekkjunum. Þetta er flóknara og krefst sérhæfðra verkfæra, eðlilegt er að láta reiðhjólaverkstæði um þessa þjónustu.

Ef þú viðheldur hjólinu ekki verður það skítugt og gengur illa og þú munt hætta að nota það.

Hjólað á veturna

Þú byrjaðir að hjóla og bara getur ekki hætt, sama hvað. Hér mun ég viðurkenna að malarhjól henta betur en götuhjól, þú vilt hafa sem breiðust dekk í snjó, og nagladekk eru ekki að gera mikið gagn fyrr en dekkið er 35mm á breidd. Ef þú kemur nagladekkjum undir hjólið ertu í góðum málum. Ég mæli ekki með því að hjóla án þeirra á veturna.

Annar kostur er að kaupa annað hjól, notað, á lítinn pening. Hjól geta farið illa vegna saltsins sem er dreift á vegina og við viljum ekki endilega bjóða flotta hjólinu okkar upp á það. Ef við getum skolað af hjólinu í vinnunni og heima ætti það samt að sleppa.

Hagnýtar upplýsingar

Flest hjóladót fæst auðvitað hjá einum af mörgum hjólabúðum á Íslandi, en oft getur álagningin verið subbulega mikil. Ég panta flest af bike24 og dekkjaslöngurnar mínar af Ali Express. Þær eru bleikar úr TPU plasti frá framleiðandanum Ride Now. Ég er líka ennþá að nota hjólagleraugun mín frá Ali. Þess utan reyni ég að versla hjá hjólabúðinni í mínu næsta nágrenni en forðast almennt Örninn.

Útsölur á hjólum er yfirleitt á haustin og þá má vel gera góð kaup.

Hafið með ykkur auka slöngu, pumpu og dekkjaþræla. Hafið líka með ykkur verkfæri til að losa afturdekkið ef hjólið er ekki með klemmu. Dekk munu springa á leiðinlegum stöðum á leiðinlegum tímum, og þá er gott að geta gert við það á staðnum.