Fjallabak 2025
Hjólað um Syðri Fjallabaksleið
Hér er fjallað um reiðhjólaferð svona nokkurn veginn um Syðri Fjallabaksleið. Ferðinni var upprunalega heitið frá Keldum í Rangárþingi að skálanum á Hungurfitum þar sem við tjöldum fyrstu nóttina. Þaðan færum við austur í átt að Krók og svo Króksleið að Emstruleið og þaðan aftur upp á Syðri Fjallabaksleið. Tjaldað yrði síðan í grennd við Brytalæki, og Öldufellsleiðin að lokum tekin að Hrífunesi þar sem ferðinni væri lokið. Ferðinni var þó breytt nokkrum sinnum sem endaði þannig að við fylgdum einfaldlega Syðri Fjallabaksleið allan tímann.

Sú staðreynd að ég á ekki fjallahjól reyndist vera vandamál, en það leystist með framdempuðu lánshjóli. Annað vandamál reyndist vera að ég átti ekki töskur undir farangurinn. Það vandamál átti að leysast með pöntuðum töskum 10 dögum fyrir brottför frá vefverslun sem lofar “6 til 9 daga sendingartíma”. Það endaði í 15 dögum, þannig að það vandamál var á endanum leyst með nýjum bögglabera á síðustu stundu, þremur lánstöskum og ströppum og benslum.
Með öll vandamál leyst var keyrt af stað á föstudagsmorgni í átt að Keldum í Rangárþingi.
Dagur 1 - Keldur að Hungurfitum
Föruneytið mætti á Keldur rétt fyrir hádegisbil. Þar púsluðum við töskunum á reiðhjólin og héldum af stað.

Veðrið var gott, léttskýjað og þurrt með stöðugum mótvind. Hjólað var stanslaust, fyrir utan stöku spjöllin við annað hjólreiðafólk sem við hittum á förnum vegi, alla leið að Hungurfitum, alls um 30km á 3 klukkustundum. Tekið var á móti okkur í Hungurfitum með nýlöguðu kaffi og pönnukökum. Þjáningin og hrakningarnar sem mér var lofað á hálendi Íslands voru hvergi að sjá. Skálavörðurinn almennilegi hafði ekki séð annað fólk í einhverja daga, og ekki var þar að hafa síma- né netsamband. Við lágum á spjalli í nokkra tíma, annar reiðhjólamaður kom við en stoppaði stutt því hann var á leið í Krók.
Við kvittuðum að lokum í gestabókina og tókum til við að tjalda. Í miðjum klíðum ríður í hlað föruneyti 40 hesta og 14 manna sem gisti í skálanum. Við höfðum borgað aðstöðugjald fyrir salerni, aðstöðu til að geyma farangur og til að matreiða. Björgunarsveita-, slökkviliðs-, sjúkraflutninga- og fjallamaðurinn með meiru bauð upp á smakkseðil af þurrmat um kvöldið. Nestið mitt voru 6 níðþungar og rúmmiklar Dominos pizzusneiðar, sem liðu mikla hneykslan viðstaddra. Sá hneykslaði dró síðan upp rafgeymi, spennubreyti, auka rafhlöðu og tvær sólarsellur fyrir rafmagnshjólið hans, svo sitt sýnist hverjum.
Á stöðufundi um kvöldið var ákveðið að fara um Fjallabaksleið í stað Króksleið daginn eftir, meðal annars vegna drægni rafhjólsins og áhyggja af vöðum og öðrum ógöngum. Saddir og sælir eftir góðan dag lögðumst við til hvílu.

Dagur 2 - Hungurfit að Brytalækjum
Eftir svefnlausa nótt með öðrum fullvaxta karlmanni í tveggja manna göngutjaldi var boðið upp á annan smakkseðil ferðarinnar og flatkökur með hangikjöti. Síðan var pakkað saman og skálaverði þakkað fyrir framúrskarandi gestrisni.
Veðrið var betra, sólin skein og vindurinn var mildari, þó mótvindur væri. Hjólað var aftur á fjallabaksleiðina og þaðan austur til Laufafells. Á leiðinni hitti ég íslandsmeistara kvenna í götuhjólreiðum sem var við æfingar fyrir Riftið, megi henni ganga vel. Stuttu síðar var staldrað við í laut til að fylla á brúsana, og aðstæður voru svoleiðis að ég endaði ofan í læknum.

Í sæluvímu vegna aðstæðna förum við yfir vað og ég hellist úr lestinni vegna reynsluleysis. Þegar bilið í föruneytið fer að styttast kemur brekka, og í þeirri brekku er misfella, og ef það er svefndýna ströppuð við gaffalinn á hjóli, þá gætu svona misfellur ollið því að svefndýnan hnikist til, lendi í teinunum á framhjólinu, festst á milli teinanna og gaffalsins og læsi dekkinu þannig að reiðmaður hendist í hálft heljarstökk og lendi beint á hálendinu. Það raungerðist og eftir einhentar aðgerðir til að losa helvítis svefndýnuna úr helvítis gafflinum gat ég loksins reitt hjólið yfir á, sem rennur eftir veginum, til föruneytisins sem hafði þá stoppað og beðið eftir mér. Þá kom sér vel að einn okkar er hjúkrunarfræðingur og gat sagt mér að ég væri ekki beinbrotinn. Seinna kom í ljós að eitt liðbandið sem tengir viðbeinið við herðablaðið hafði rofnað. Haldið var áfram í krafti Panódíls og Íbúfens úr ferðalyfjabúri fjallamannsins.

Hjólað var áleiðis að Álftavatni þar sem við rúlluðum í hlað ásamt hlaupurum í Laugavegshlaupinu við ómandi hljóma If You Wanna Be My Lover með Spice Girls. Þar borðuðum við nesti, þurrkaða kartöflustöppu með beikoni frá Knorr og flatkökur með hangikjöti. Rétt fyrir brottför dró ský fyrir sólu og kólna fór í veðri. Ég fór í lopapeysu yfir hjólajakkann minn, næst þegar ég sé skýin ganga yfir þá fer ég beint í regnjakka.
Við hjólum frá Álftavatni að Hvanngili, fyrir utan skálann þar var tekinn stuttur stöðufundur um hvort við skyldum halda okkur við Brytalæki eða hvort við ættum jafnvel að halda í Strútsskála til að hafa betri aðstöðu ef veðrið skyldi versna. Ákveðið var að taka stöðuna þegar nær drægi. Lagt var af stað og nánast samstundis versnaði veðrið, og þegar komið var á Mælifellssand var komin grenjandi rigning og skemmtilega hvass mótvindur.

Puðað var eftir öllum Mælifellssandi í um tvo klukkutíma þar til komið var að gatnamótum, Strútur til norðurs eða Brytalækir til suðurs. Veðrið var orðið slæmt og því var ákveðið að halda í skálann, en hér hafði rafmagnshjólið hellst úr lestinni og var líklega um hálftíma á eftir okkur. Ekkert síma- né netsamband var að hafa svo að skilaboð voru skrifuð á sandinn með grjóti.

Afleggjarinn frá Mælifellssandi að Strútsskála var meira og minna eitt stórt vað sem var þó oftast hægt að hjóla yfir. Við mættum í skálann heldur hraktir í von um að fá afnot af aðstöðu skálans og kost á að þerra blaut föt og búnað. Af skiltum og verðskrá að dæma var loðið hvort að tjaldsvæðið mætti nota aðstöðu skálans, en skálavörður var mjög almennileg og leyfði það nú, þó við höfum fyrir rest ákveðið að gista bara í skálanum.

Á staðnum voru við tveir af þremur í föruneytinu, saumaklúbbur, tveir franskir bakpokaferðalangar og teymi sviss/franskra jöklarannsakenda. Eftir klukkutíma dvöl í skálanum voru áhyggjurnar af rafmagnsreiðhjólamanninum orðnar ágætlega miklar, og einmitt þegar við vorum að fara að leggja af stað í björgunarleiðangur á jeppa skálavarðarins sást glitta í eitthvað sem leit út eins og maður á hjóli í fjarska, sem reyndist síðan vera þriðji maður föruneytisins.
Með fulla áhöfn tókum við stöðufund, og sökum þess að allt og allir voru blautir, úti var rok og rigning og klukkan var seint, þá var ákveðið að gista í skálanum. Við tókum þrjá seinustu svefnstaðina og skiptum í þurr föt. Um kvöldið skiptust skálagestir á sögum, svefntími skall svo á og allir gengu til rekkju.
Dagur 3 - Strútur að Hrífunesi
Eftir betri svefn en nóttina áður, þó strjálan vegna axlarinnar, vöknuðum við og fengum okkur eins stóran morgunmat og við orkuðum, veðrið var verra en daginn áður og ekki var hægt að bíða daginn af sér, þó mánudagurinn ætti að vera 24°C, sólríkt og logn, en ekki 9°C, rok og rigning.
Ákveðið var að halda áfram eftir Syðri Fjallabaksleið, vegna þess að hún er ögn styttri en Öldufellsleiðin sem við ætluðum upphaflega að fara og ekkert rafmagn var til staðar í skálanum til að hlaða rafmagnshjólið. Skálavörðurinn varaði okkur annars vegar við leysingum úr Mýrdalsjökli sem hafa myndað um 2km breiða en grunna jökulá yfir Fjallabaksleiðina austan við Mýrdalsjökul, og hins vegar við Hólmsá, mikið var í henni vegna leysinga úr jöklinum og mikillar rigningar seinustu daga.
Lagt var af stað, verkjalyfin voru farin að virka en ég hafði rifið upp húðina í lófunum við fallið einmitt þar sem lófarnir hvíla á stýrinu og það olli almennt meiri óþægindum þann daginn. Ég hjólaði á tánum í Sports Crocs því fyrri hluti ferðarinnar var ekkert nema eitt stórt varð. Annars var ég í stuttum hjólabuxum, föðurlandstreyju og mínum besta skeljakka. Skeljakkinn mikli hélt í svona kortér í mótvindinum og rigningunni, en svipað og í kvikmyndinni Speed þar sem strætóinn springur ef hann fer of hægt, þá urðum við ekki úti svo lengi sem við hjóluðum. Við komum von bráðar að jökulhlaupinu þar sem vegurinn hafði horfið undir sandinn og í staðinn var komin breið og grunn jökulá. Vatnið var ruddalega kalt, enda beint úr jöklinum, en blessunarlega var að mestu leyti hægt að hjóla yfir það.

Eftir að hafa skolað jökulinn og sandinn úr skónum hjóluðum við stuttan spöl þar til við komum að Hólmsá, sem við höfðum verið varaðir við. Áin var straumhörð og náði upp fyrir mitti þar sem dýpst var og þar hífði ég hjólið upp á aðra öxlina þar sem ég gat ekki haldið því í straumnum með einni hendi.

Í miðri ánni sogast annar skórinn af mér og flýtur upp um 10 metrum neðar, vonandi rekur hann að landi einhversstaðar og endar í endurvinnslutunnu fyrir plast. Eftir svakalega baráttu við ána komumst við tveir á ganglimaknúðu hjólunum yfir, og sökum þess að hve þungt rafmagnshjólið var, gátum við okkur til um að það kæmist ekki yfir ána. Knapi rafmagnshjólsins var líklega rúmum klukkutíma á eftir okkur, svo ekki var raunhæft að bíða þar til hann kæmi. Í staðinn var planið að hjóla að næsta bæ, þar gætum við athugað stöðuna á honum í gegnum GPS tækið hans, eitthvað sem ég þarf að fá mér. Rafmagnshjólamaðurinn var það hokinn reynslu að áhyggjurnar snerust ekki um að hann yrði úti eða sér að voða, heldur að hann kæmist ekki á áfangastað þennan daginn. Hjólað var í einum Sports Crocs og einum venjulegum skó yfir hóla og hæðir, fjöll og firnindi þar til við komum að Snæbýli.

Á leiðinni í byggðir mætir okkur jeppi sem við stoppum í þeim tilgangi að bera boð um að við værum að hjóla til byggða að sækja hjálp. Liðið í bílnum reynast vera Frakkar, og þegar tengdafaðir minn tekur til máls svelgist honum um leið á eldstafi frá Goða og kafnar næstum, Frökkunum til mikils hryllings. Þau fara að dæla í hann Cadbury súkkulaðifingrum í von um að lífga hann við, sem tókst að lokum. Þá náðist að segja þeim að að segja vini okkar að við værum að sækja hjálp.
Við hjólum restina af leiðinni á Snæbýli þar sem við drjúpum að dyrum og komumst í net- og símasamband, kaffi og súkkulaði. GPS tækið sýndi að rafmagnshjólið var rétt komið yfir ána. Þetta tæki býður líka upp á að senda skilaboð í gegnum gervitunglasamband, við fengum eitt þess efnis að það ætti 15km eftir í Snæbýli. Við áætluðum meðalhraða rafmagnshjólsins vera um 5km/klst, því það var búið að klára rafhlöðurnar, sem þýddi um 3 klukkutíma í endurfund. Ferðaþjónustubóndinn rausnarlegi bauð okkur einn jeppann sinn til að fara að sækja ferðafélagann, sem við þáðum með þökkum.
Við mættum honum eftir rúmlega 20 mínútna akstur, við neyddum hann til að taka hjálpinni þar sem nánast engin drægni væri eftir á rafhlöðunni, miklar brekkur væru framundan og engar aðstæður væru til að njóta sín.
Við keyrum til baka að Snæbýli þar sem við fáum að skipta í þurr föt og meira kaffi. Að lokum vorum við sóttir beint á býlið og komumst aldrei að Hrífunesi. Við endum góða ferð með stoppi í brugghúsinu Smiðjunni í Vík í Mýrdal þar sem við gæddum okkur á bjór og borgurum.
Útbúnaður
Hér er útbúnaði í tengslum við ferðina lýst, hvað hefði mátt betur fara og hverju ég hefði breytt.
Hjól

Hjólið sjálft dugði ágætlega, ég hefði kunnað að meta annað hvort afturdempara eða breiðari dekk. Breiðustu dekkin sem komust á þetta hjól voru 2.25". Ég er að fara að stunda hjólaferðir um hálendið þar sem mikið er af sandi, og þá væri gott að vera á hlussubreiðum dekkjum. Ég hjóla líka í vinnuna allan ársins hring, og þá er gott að vera á breiðum dekkjum þegar sveitafélögin standa sig ekki í mokstri.
Töskur
Töskurnar sem ég pantaði fyrir ferðina en komu of seint voru stór 16 lítra hnakktaska, 12 lítra stýristaska og 4 lítra taska sem festist á stell hjólsins.
Þær komu ekki í tæka tíð og var ég því með bögglabera, tvær bögglaberatöskur, stýristösku og stóran flöskuhaldara á gafflinum.
Bögglaberinn var allt í lagi en ég hefði heldur viljað hafa hinar töskurnar sem eru léttari og meðfærilegri. Draslið á gafflinum drap mig svo næstum því þannig ég sleppi þeim næst.
Að auki var ég með tvær litlar töskur, önnur var lítill snakkpoki sem hékk á stýrinu. Hann var alltaf fullur af nasli og var alger snilld. Hin sat ofan á stellinu rétt fyrir aftan stýrið. Það hýsti hleðslubankann minn sem var hluta ferðarinnar beintengdur í hjólatölvuna mína til að halda henni gangandi allan daginn. Þá tösku keypti ég á 600kr á sumarútsölu í Húsasmiðjunni, og stóð hún sig vel miðað við verð.
Rafbúnaður
Ég var með hjólatölvuna mína, eldgamla Garmin Edge 1000 með slappri rafhlöðu sem dugir bara í fáeina klukkutíma. Inn á hana hafði ég hlaðið leiðinni frá upphafi til enda, sem og leiðunum fyrir hvern dag.
Þar sem leiðin breyttist dag frá degi hefði ég þurft einhverja leið til að koma nýjum kortum á tölvuna.
Þó að við hefðum ekki alltaf fylgt leiðunum sem voru á tölvunni gat ég alltaf séð alla vegi, sem kom sér til dæmis vel í flæðunum undan Mýrdalsjökli þar sem engan veg var að sjá.
Ég tók símann minn með, en ekkert síma- né netsamband var nokkursstaðar á leiðinni. Ég tók með mér litla vatnshelda hasarmyndavél og notaði símann ekki til að taka myndir. Það var slökkt á honum eiginlega allan tímann. Yfir blautustu kaflana var skjárinn líka það blautur að hann tók ekki inntaki, og ekkert var nógu þurrt til að þurrka hann.
Myndavélin sem ég tók með var svona lítil vatns-, ryk- og höggheld vasamyndavél. Það eru alvöru takkar á henni til að ræsa hana og til að taka myndir, sem var nauðsyn í þessum aðstæðum. Ég tók auka rafhlöðu fyrir hana, það var óþarfi fyrir þrjá daga.
Föt
Ég var í götuhjólafötunum mínum, stuttum hjólabuxum, íþróttabol, hjólajakka og þunnum hjólahönskum. Það hentaði furðu vel á meðan veðrið var gott. Af hlýrri fötum var ég með lopapeysu sem ég fór í yfir hjólajakkann, góðan skeljakka og skelhanska.
Ég tel það ómögulegt að haldast þurr fyrir neðan mitti, hjólandi á hálendinu, og það er allt í lagi. Ég hjólaði í stuttu hjólabuxunum alla ferðina og fann ekki fyrir kulda, en hitinn fór reyndar aldrei niður fyrir 7°C á meðan við hjóluðum.
Ef ég ætlaði mér eitthvað að haldast þurr fyrir ofan mitti hugsa ég að ekkert nema sjóklæði dugi. Skeljakkinn hélt ekki og skelhanskarnir fylltust af vatni, næst tek ég með mér regnslá úr plasti.
Af öðrum fötum var ég með tvö sett af síðum ullarnærfötum, eitt til að sofa í og hitt til að fara í sem innsta lag ef kalt yrði. Svo var ég með 5 pör af sokkum, sem var óþarflega mikið.
Svefnbúnaður
Tjaldið sem við sváfum í aðra nóttina var tveggja manna göngutjald sem við sváfum tveir í. Annað hvort þarf ég að taka margar svona æfinganætur fyrir næstu ferð eða vera með eins manns tjald ef ég ætla mér að sofa eitthvað.
Svefnpokinn var einnig í láni frá vini mínum, hann var of kaldur og svo finnst mér skrýtið að fá svefnpoka lánaða. Ég mun eiga minn eigin næst.
Svefndýnan var svo líka í láni frá þessum sama vini mínum. Hún var góð þó hún hafi óbeint ollið slysi, en þetta er eitt af því sem ég ætti að eiga sjálfur.
Nesti
Áætlunin var að hjóla í 3 daga þannig ég pakkaði nesti fyrir 5 daga. Sé ekki eftir því. Fyrir hvern dag pakkaði ég
- Morgunmat
- Hádegismat
- Kvöldmat
- Þremur pokum af hitaeiningaríkri næringu
Máltíðirnar voru þurrmatur eða skyndiréttir sem þarf bara að sjóða, fyrir utan Dominos, svo reiknuðum við með 200kcal á klukkutíma á meðan við hjóluðum. Þrír tímar líða á milli máltíða svo fyrir hvern dag pakkaði ég þremur pokum af 600kcal, það var blanda af hnetusmjörshúðum döðlum, Snickers, harðfiski, eldstöfum og hnetublöndu.
Ég var með tvo 700ml brúsa, í einum var vatn og í hinn blandaði ég einhverri orkugefandi íþróttadrykkjarblöndu í töfluformi. Ég fann það í Fjarðarkaup.
Ég pakkaði þessum snakkpokum fyrir tvo auka daga en þeir kláruðust samt nánast, næst geri ég ráð fyrir fjórum þannig pokum á dag.
Ég tók með Aeropress og kaffi í poka, sumir telja það munað en það er að sjálfsögðu nauðsyn.

Annað
Áhættumatið mitt var þannig að ég gæti sprengt dekk og að ýmsir boltar og festingar gætu losnað. Ég ætlaði því að taka með
- Innri slöngu
- Dekkjaþræla
- Pumpu
- Fjölverkfæri
Sá sem var á rafmagnshjólinu endaði á að taka allt það sem við gætum sameiginlega notað með sér, s.s. verkfæri, varahluti og prímus.
Við urðum oft viðskila, þá hefði verið gott að vera með varahluti og verkfæri á sér, sem ég geri næst. Það var ekki þörf á auka prímus.
Ég tók ofnæmistöflur og panódíl. Meira af dópi og sárabindum næst.