Þarftu Cloudflare?
Í dag datt mér í hug að athuga hvort að eitthvað Garmin úr væri á útsölu í Garmin búðinni. Mér til ama tók á móti mér villa á innri kerfum vefsins með kóða 500. Stuttu síðar sá ég frétt á Vísi þess efnis að bilun væri hjá Cloudflare, DNS- og hýsingaraðila sem þjónustar um 20% af öllu internetinu, og að því er virðist einhverru hærra hlutfalli hér á landi.

Mikið er um að mælt sé með Cloudflare þegar vefsíður eru settar upp, einkum vegna innbyggðrar varnar gegn dreifðum álagsárásum. Fæstir kúnnar þeirra eru það stórir að niðritími vegna álagsárása sé verulegt áhyggjuefni, og þau sem telja sig vera það eru oft með meiri niðritíma vegna endurtekinna bilana hjá Cloudflare en annars.
Cloudflare er með DNS þjón á Íslandi þannig að fyrirspurnir á lén hýst hjá þeim fara undir venjulegum kringumstæðum ekki út fyrir landsteinana, en ef að sæstrengirnir rofna hættir hins vegar landlægi Cloudflare þjónninn að svara beiðnum.
Bilunin varaði í um 2 klukkustundir. Garmin úrin voru ekki á útsölu eftir allt saman.
Undirritaður mælir með DNS þjónustu 1984 vegna landlægrar staðsetningar og áreiðanleika.